Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 8 . mál.


Ed.

202. Nefndarálit



um frv. til l. um efnahagsaðgerðir.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið í tengslum við umfjöllun sína um 20. og 21. mál. Nefndin hefur fjallað um þessi mál á átta fundum og til viðtals við nefndina komu: Gunnar Hilmarsson frá Atvinnutryggingarsjóði, Guðmundur Malmquist frá samstarfsnefnd lánastofnana atvinnuveganna, Eyjólfur Jónsson, Guðmundur Þ Jónsson og Daði Ólafsson frá Atvinnuleysistryggingasjóði, Ágúst Einarsson og Ágúst V. Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Árni Benediktsson frá Félagi Sambands fiskframleiðenda, Ólafur B. Ólafsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Lárus Jónsson frá Félagi rækju- og hörpudisksframleiðenda, Eiríkur Valsson frá Sölustofnun lagmetis, Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Árni Kolbeinsson frá Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, Haraldur Sumarliðason og Þórleifur Jónsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Ólafur Davíðsson og Víglundur Þorsteinsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Halla Holton frá Hildu, Aðalsteinn Helgason frá Álafossi, Ágúst Eiríksson frá Árbliki, Jón Ragnar Björnsson, fulltrúi loðdýraræktenda, Þórarinn V. Þórarinsson og Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Sigurgeir Sigurðsson og Magnús E. Guðjónsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hákon Sigurgrímsson, Haukur Halldórsson og Gunnlaugur Júlíusson frá Stéttarsambandi bænda, Guðjón Kristjánsson og Helgi Laxdal frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Óskar Vigfússon og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Haraldur Hannesson og Ragnhildur Guðmundsdóttir frá BSRB, Ari Skúlason, Örn Friðriksson og Ragna Bergmann frá ASÍ, Eiríkur Guðnason frá Seðlabanka Íslands, Halldór Árnason frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Lárus Ögmundsson og Snorri Olsen frá fjármálráðuneyti og Þórður Ólafsson frá bankaeftirlitinu. Með nefndinni starfaði Sveinn Agnarsson frá Ríkisendurskoðun.
    Frumvarp þetta er til staðfestingar bráðabirgðalögum sem út voru gefin hinn 28. september sl. er ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum. Bráðabirgðalögunum fylgdi svohljóðandi rökstuðningur:
    „Forseti Íslands gjörir kunnugt: Forsætisráðherra hefur tjáð mér að brýna nauðsyn beri til að ákveða þegar aðgerðir til að koma í veg fyrir stöðvun mikilvægra útflutningsfyrirtækja, styrkja afkomu atvinnuvega, draga úr verðbólgu, lækka vexti og koma þannig í veg fyrir yfirvofandi atvinnuleysi og leggja grunn að atvinnuöryggi og stöðugleika í efnahagslífinu.“
    Meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar telur að útgáfa þessara bráðabirgðalaga hafi verið nauðsynleg og óhjákvæmileg eins og sakir stóðu í lok september og lítur á útgáfu laganna sem mikilvægt skref í þeirri viðleitni að halda atvinnulífinu gangandi, lækka vexti og minnka verðbólgu. Ýmsum markmiðum hefur þegar verið náð, svo sem lækkun verðbólgu og lækkun vaxta. Ljóst er þó að á ýmsum sviðum var ástand í efnahagslífi bæði hjá fyrirtækjum og í ríkisfjármálum sýnu lakara en upplýsingar lágu fyrir um þegar lögin voru sett.
    Samhliða afgreiðslu þessa máls eru afgreidd bráðabirgðalög sem út voru gefin 20. maí og 31. maí í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar. Nokkrar greinar í II. kafla frumvarpsins breyta bráðabirgðalögunum frá því í maí. Meiri hl. nefndarinnar telur eðlilegast að þær greinar verði felldar brott úr þessu frv. en teknar upp í frumvarpið um staðfestingu maí-laganna og flytur breytingartillögur í því skyni.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögum sem fluttar eru á sérstöku þingskjali. Nánari grein verður gerð fyrir málinu í framsögu.

Alþingi, 8. des. 1988.



Eiður Guðnason,

Valgerður Sverrisdóttir,

Jóhann Einvarðsson.


form., frsm.

fundaskr.



Margrét Frímannsdóttir.